500 kökusneiðar

Morgunblaðið 22.mars 2011 eftir Ólaf Bernódusson

Aimée Xenou er listamannsnafn Ninette Rothmüller sem dvalist hefur í Nes listamiðstöðinni á Skagaströnd síðan í lok nóvember. Aimée er gjörningalistamaður og nýverið stóð hún fyrir tveimur slíkum með hálfs mánaðar millibili þó að þeir væru tengdir innbyrðis. Fjöldi manns hefur sótt þessa tvo gjörninga enda hafa þeir báðir verið áhugaverðir og nýstárlegir hvor á sinn hátt.

Fyrri gjörninginn kallaði Aimée „Light meets dance performance“ en hann fólst í því að fólk mætti í Hólaneskirkju að kvöldlagi, hlustaði þar á bróður hennar leika tvö tónverk á orgel og fylgdist síðan með þegar fjórir dansarar dönsuðu með lifandi ljós úr kirkjunni niður að sjó. Kveikjan að þessu verki er sú, að sögn Aimée, að í kirkjuturninum er innsiglingaljós sem beinir sæfarendum rétta leið til hafnar á Skagaströnd. Þannig vildi hún með táknrænum hætti flytja ljós, og þessa tvöföldu leiðbeiningu kirkjunnar, til sjávar í myrkri undir stjörnubjörtum himni. Bróðir Aimée kom sérstaka ferð frá Þýskalandi til að taka þátt í gjörningnum með tónlistarflutningnum

Seinni gjörninginn kallaði Aimée „Reading + Feeding“. Hann fólst í því að hún bauð öllum Skagstrendingum í listamiðstöðina þar sem hver og einn átti sína merktu gómsætu kökusneið. Hafði yfir 500 kökusneiðum verið raðað á borð á munnþurrkum sérmerktum hverjum og einum íbúa bæjarins.

Áður en fólk fékk tækifæri til að leita uppi sína sneið var texti lesinn á þremur tungumálum: þýsku, sem er móðurmál listakonunnar, íslensku, móðurmáli Skagstrendinga og á ensku sem kalla má alheimsmál númer eitt. Einnig hafði Aimée fengið táknmálstúlk til að sýna á myndbandi þau íslensku orð sem fólk á Skagaströnd hefur kennt henni þessa mánuði sem hún hefur búið hér. Voru þau sýnd á skjá og lesin upp til um leið til skýringar og skemmtunar. Fagnaði Aimée sérstaklega framkomnu frumvarpi á Alþingi um að gera táknmál að ríkismáli við hlið íslenskunnar.

Foreldrar listakonunnar komu frá Þýskalandi til að aðstoða hana við baksturinn á öllum kökunum sem hún bauð upp á og til að taka þátt í lestrinum. Í stuttri kynningu sem Aimée flutti kom fram að henni finnst eins og Skagstrendingar hafi tekið sig í fóstur og hún lítur á íbúana sem fjölskyldu sína hér. Þess vegna vildi hún leyfa okkur að fá að smakka á köku sem ávallt er bökuð í fjölskyldu hennar í Þýskalandi þegar eitthvað stendur til. Gerður var góður rómur að þessum uppákomum báðum og sennilega eru þetta fjölsóttustu listaviðburðir Nes listamiðstöðvarinnar til þessa.

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.